Rudyard Kipling

Joseph Rudyard Kipling eða bara Rudyard Kipling, eins og menn þekktu hann, var stórvirkur rithöfundur og skrifaði bæði sögur fyrir fullorðna og börn auk þess sem hann var mikilsvirt ljóðskáld.  Kipling sem fæddist á Indlandi var fyrsti Bretinn til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum og var það árið 1907.  Í dag er hann einkum kunnur fyrir barnabækur sínar, The Jungle Book (1894) og Just So Stories (1902), sem er nokkur synd þar sem margt af því sem hann skrifaði fyrir fullorðna stendur enn fyllilega undir nafni og á fullt erindi til samtímans.  Smásögur hans þótti mjög hugvitssamlega uppbyggðar og Kipling er almennt talinn hafa víkkað út smásöguformið.  Sögur hans fyrir fullorðna hafa þó gjarnan þótt hafa verið hallar um of undir bresku heimsvaldastefnuna og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að hann sýni öðrum þjóðum hroka í skrifum sínum.  Menn er þó alls ekki á eitt sáttir um það og hvað sem því líður þá bjó hann yfir stórkostlegum hæfileikum að skrifa sögur.

Kipling fæddist í Bombay á Indlandi  30. desember árið 1865, en foreldar hans voru leirlistamaðurinn John Lockwood Kipling og kona hans Alice.  Litu þau á sig sem Enska Indverja og það átti sonur þeirra eftir að gera einnig þrátt fyrir að hann dveldi þar ekki lengi.  Auk þess að vera listamaður var faðir hans einnig skólastjóri við listaskóla í Bombay.  Höfðu þau hjónin þá verið gift í tvö ár en á Englandi bjuggu þau fyrst við Rudyard vatn í Staffordshire og þaðan er óvenjulegt nafn Kiplings ættað.

Kipling bjó með foreldrum sínum á Indlandi fram til sex ára aldurs, en þá var hann sendur til Englands ásamt systur sinni þriggja ára gamalli til að fara í skóla.  Var það mikil umbreyting í lífi ungs drengs að missa þannig í sömu andránni tengslin við foreldra sína og breyta algjörlega um umhverfi.  Kipling minntist þessara umskipta í ævisögu sinni, og segist hafa saknað æskuslóðanna á Indlandi mjög og hafi þessi fyrstu ár á Englandi verið versti tími lífs hans.  Alltaf eftir þetta átti Bombay sérstakan sess í huga hans eins og sjá má af eftirfarandi:

Mother of Cities to me,
For I was born in her gate,
Between the palms and the sea,
Where the world-end steamers wait.

Á Englandi var Kipling næstu árin og dvaldi hjá fólki sem tók að sér að hýsa og annast um börn Englendinga sem bjuggu á Indlandi og vildu senda börn sín í skóla á Englandi.  Var þetta eins og áður sagði erfiður tími í lífi hans, en seinna taldi hann það jafnvel hafa stuðlað að því að hann fór að skrifa jafn snemma og raun bar vitni. 

Árið 1877 þegar Rudyard var 12 ára gamall kom móðir hans til Englands og þegar hún sá hvað börnunum leið illa í vistinni fékk hún þeim annan samastað.  Næsta ár fékk Kipling inni í nýlegum skóla sem átti að undirbúa drengi undir hermennsku.  Reyndist skólinn honum erfiður í fyrstu, en með tímanum aðlagaðist hann.  Í sögunum Stalky & Co. sem hann skrifaði töluvert síðar byggði hann á reynslu sinni þar.

Hugur Kiplings stefndi á háskólanám í Oxford en árangur hans gaf ekki til kynna að hann ætti erindi þangað og því varð úr að faðir hans útvegaði honum aðstoðar ritstjórastöðu við breskt dagblað, Civil & Military Gazette, í Lahore sem nú er í Pakistan, en faðir hans var einmitt tekinn við skóla þar.  Rudyard sigldi til Bombay og kom þangað í október 1882 eftir rúmlega tíu ára fjarveru. 
Vinnan við blaðið var mikil og erfið, en að sama skapi gefandi.  Kipling fann sig strax í vinnunni og seinna sagði hann um blaðið að það hefði verið „my first mistress and most true love.“

En þrátt fyrir að fréttaskrifin væru tímafrek fann hann einnig tíma til að skrifa sögur og ljóð. Árið 1886 gaf hann svo út fyrstu ljóðabókina Departmental Ditties.  Það ár urðu líka ritstjóraskipti á blaðinu og nýi ritstjórinn var opnari fyrir alls kyns skapandi skrifum.  Þar með var Kipling kominn með farveg fyrir sögurnar sínar.  Frá nóvember 1886 til júní 1887 birti hann 39 sögur í blaðinu.  Þær sögur gaf seinna út í safninu Plain Tales from the Hills.

Árið 1887 flutti Kipling sig um set og fór að vinna við blaðið The Pioneer.  Hélt hann stöðugt áfram að skrifa og árið 1888 sendi hann frá sér sex smásagnasöfn:  Soldiers Three, The Story of the Gadsbys, In Black and White, Under the Deodars, The Phantom Rickshaw, and Wee Willie Winkie.

Tveimur árum síðar ákvað hann svo að segja skilið við blaðamennsku og hélt til Englands staðráðinn í að gerast rithöfundur.  Á leiðinni þangað kom hann við í Bandaríkjunum og hitti m.a. Mark Twain sem hann hafði mikið álit á. 

Fyrstu árin á Englandi fóru einkum í að kynna sig og fékk hann margar sögur birtar í ýmsum tímaritum.  Þá gaf hann út sína fyrstu skáldsögu, The Light That Failed.  Viðtökurnar voru misjafnar og Kipling fékk taugaáfall.  Hann kynntist bandarískum höfundi, Wolcott Balestier, vann lítillega með honum og kynntist systur hans sem síðar átti eftir að verða eiginkona hans.  Skömmu síðar hélt hann í siglingu að ráði lækna til að bæta heilsuna.  Þegar hann er á siglingunni fréttir hann að Balister hafi látist úr taugaveiki og ákveður að snúa strax aftur til London.  Hann sendi skeyti til Caroline systur Wolcotts og bað hennar.  Tók hún bónorðinu.  Giftust þau 1892.

Þau settust að í Bandaríkjunum og 1892 fæddist þeim dóttir, Josephine.  Efnahagurinn var bágur og þau bjuggu í litlum kofa sem þau leigðu á 10 dollara á mánuði.  Það var einmitt þar sem Kipling hóf að skrifa sitt þekktasta verk, The Jungle Book.  Síðar keyptu þau sér lítinn landskika í Vermont og byggðu sér hús á honum.  Skáldagyðjan var örlát við hann á þessum árum því auk þess að gefa út The Jungle Book gaf hann út smásagnasafnið The Day's Work, skáldsöguna Captain Courageous og nokkur ljóðakver.  The Jungle Book varð mjög vinsæl og stjarna Kiplings reis hratt.  Var þetta hamingjuríkur tími fyrir Kipling, en auk þess sem bækur hans voru farnar að seljast átti hann í töluverðum samskiptum við aðra rithöfunda, t.a.m. Arthur Conan Doyle, höfund sagnanna um Sherlock Holmes, og gaf það honum heilmikið.  Árið 1896 eignuðust svo Kipling hjónin aðra dóttur sem skírð var Elsie. 

Svo virtist sem Kipling væri nú staðráðinn í að setjast alfarið að í Bandaríkjunum, en þá breyttust aðstæður skyndilega.  Bandaríkin og Bretland lentu í milliríkjadeilu út af áhrifum í Venesúela og hitnaði svo í þessu máli að talað var um stríð milli þjóðanna.  Fannst Kipling hann nú finna fyrir óvild Bandaríkjamanna í garð Breta sem bjuggu þar.   Ákvað Kipling því að venda kvæði sínu í kross og snúa aftur til Englands.  Annað mál sem gæti einnig hafa haft áhrif á ákvörðun þeirra að flytja frá Bandaríkjunum var fjölskylduósætti í fjölskyldu eiginkonu hans.  Í júlí 1896 sigldu þau til Englands. 

Kipling hjónin settust að í Torquay í Devon og Rudyard hélt uppteknum hætti og skrifaði án afláts.  Hann var nú orðinn þekktur maður á Englandi og víðar og var auk þess farinn að taka pólitíska afstöðu í skrifum sínum.  Töluðu menn um að skrif hans endurspegluðu kynþáttafordóma og væru höll undir áframhaldandi heimsveldisstefnu Breta. 

Árið 1898 ferðuðust þau hjónin í vetrarfrí til Suður-Afríku og eftir þessa fyrstu ferð var það árvisst, allt fram til 1908.  Kynntist hann þar helstu framámönnum í stjórnmálum og fór að taka enn virkari afstöðu í pólitískum deilumálum samtíðar sinnar.  Var hann t.a.m. mikill stuðningmaður Breta í Búastríðinu. 

Það er gaman að geta þess að Kipling hafði frá upphafi mikil tengsl við Skátahreyfinguna og var persónulegur vinur Baden-Powells, stofnanda hennar.  Mun Baden-Powell hafa fengið hugmyndina að hreyfingunni í Búastríðinu. 

Árið 1899, þegar hann fór í heimsókn til Bandaríkjanna, varð hann fyrir því áfalli að Joesphine dóttir hans lést úr lungnabólgu.  Veiktist Kipling sjálfur en náði sér. 

Árið 1901 gaf hann út skáldsöguna Kim og ári síðar komu út barnasögurnar Just So Stories for Little Children sem urðu gríðarlega vinsælar.  Smásagnasafnið Puck of Pook's Hill kom svo út 1906.

Vinsældir Kiplings voru mestar á þessum árum, þ.e. á fyrsta áratug 20. aldar og árið 1907 hlaut hann bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrstur allra enskumælandi höfunda, en þau verðlaun voru fyrst veitt árið 1901. 

Árið 1910 gaf Kipling út ljóðasafnið Rewards and Fairies, en það innihélt m.a. ljóðið ,,If'', sem varð gríðarlega vinsælt og var t.a.m. kosið vinsælasta ljóð Breta í könnun sem BBC lét gera árið 1995. 

Árið 1915 varð Kipling enn fyrir því áfalli að missa barn, er einkasonur hans, John, lést í fyrri heimsstyrjöldinni.  Tók hann það mjög nærri sér.  Í kjölfarið skrifaði hann tveggja binda sögu um herdeildina sem sonur hans hafði tilheyrt og er hún enn talin með betri slíkum verkum sem skrifuð hafa verið.  Þá vann hann ötullega eftir stríðið að því að útbúa grafreiti fyrir fallna hermenn víðsvegar um heiminn.  Saga hans The Gardener fjallar um heimsókn á slíkan stað.

Kipling hélt áfram að skrifa allt fram til 1930, en afköstin undir það síðasta voru lítil og þá voru vinsældir hans farnar að dvína svo um munaði.  Rudyard Kipling lést úr heilablóðfalli 18. janúar árið 1936.  Nokkru áður en hann dó hafði tímarit sem hann var áskrifandi að tilkynnt um lát hans, en hann skrifaði þeim þá: „Ég var rétt í þessu að lesa að ég væri dauður.  Fyrst svo er þá megið þið ekki gleyma að stroka mig út af áskrifendalistanum ykkar.“
Eina barn þeirra Kiplings hjóna sem lifði fram yfir átján ára aldur, Elsie, lést barnlaus árið 1976 og arfleiddi Náttúruverndarráð Bretlands að höfundarétti verka föður síns. 

Eins og áður sagði bjó Kipling um tíma í Bandaríkjunum og hefur ávallt síðan notið töluverðra vinsælda þar.  Það eru t.a.m. þrjár borgir í Bandaríkjunum og ein í Kanada nefndar í höfuðið á honum.

Eftir dauða Kiplings dró verulega úr vinsældum verka hans.  Nýjar áherslur í bókmenntum voru að ryðja sér til rúms, bæði í sögugerð og ljóðum, en formföst ljóð Kiplings áttu ekki lengur upp á pallborðið.

Þá óx þeim röddum ásmegin sem héldu því fram að verk Kiplings endurómuðu af kynþáttafordómum og gömlum gildum.  Var því t.a.m. haldið fram að sögur hans frá Indlandi gerðu lítið úr Indverjum og þar væri að finna þann boðskap að Indverjar gætu ekki komist ef nema með hjálp vestrænna vina sinna.  Ekki voru þó allir á þessu og bentu á að Kipling væri í skrifum sínum einungis að segja sögur og að menn mættu alls ekki rugla saman það sem söguhetjur hans létu sér um munn fara og hans eigin skoðunum.  Þá verður líka að taka tillit til hvenær hann skrifaði bækur sínar, að hann hafi bara verið að lýsa viðteknum skoðunum síns tíma.  Hvað sem því líður eru bækur hans flestar litnar hornauga á Indlandi enn þann dag í dag, einkum þær bækur sem hann lét gerast á Indlandi.

Þrátt fyrir að vera umdeildur vegna þessa hafa margir seinni tíma rithöfundar ritað honum lof, menn eins Poul Anderson og Jorge Luis Borges. 

Það sem helst hefur haldið nafni Kiplings á lofti fram til dagsins í dag eru barnabækur hans.  Bækur eins og The Jungle Book og Just-So Stories eru enn lesnar í dag og þykja góðar barnabækur.  Hafa verið gerðar vinsælar kvikmyndir eftir sumum þeirra.

Áhrif Kiplings má finna víða.  Líta margir höfundar vísindaskáldsagna á hann sem fyrsta nútíma höfund slíkra sagna.  Má merkja áhrif frá Kipling í ritum höfunda eins og John W. Campbell og Robert A. Heinlein. Fyrir þá sem vilja kynna sér þessa hlið Kiplings er bent á að lesa söguna With the Night Mail frá 1912.